14.10.2015 | 15:50
Aðalfundur Skákfélags Sauðárkróks 2015
Boðað er til aðalfundar Skákfélags Sauðárkróks og verður hann haldinn miðvikudaginn 28. október kl. 20, í safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju. Fundurinn fer fram fyrir hefðbundna æfingu en atkvæðisrétt á fundinum hafa skráðir félagsmenn. Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Lagabreytingar
- Ákvörðun félagsgjalds
- Kosning stjórnar
- Önnur mál
Boðað er til fundarins með tveggja vikna fyrirvara.
Þór Hjaltalín, formaður Skákfélags Sauðárkróks.
16.9.2015 | 15:37
Vetrarstarfið er hafið
Vetrarstarf Skákfélags Sauðárkróks hófst sunnudaginn 30. ágúst síðastliðinn með atskákmóti í garðinum hjá Jóni Arnljótssyni á Mælifellsá. Sex keppendur mættu galvaskir til leiks í fallegu veðri en nokkrum svala sem menn klæddu einfaldlega af sér. Fóru leikar þannig að Pálmi Sighvatsson náði að leggja alla sína andstæðinga og hlaut 5 vinninga. Næstir komu Þór Hjaltalín með 3 ½ og Jón Arnljótsson með 3 vinninga.
Æfingar verða, líkt og síðasta vetur, í safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju á miðvikudögum kl. 20 og eru allir velkomnir, konur og karlar, ungir og gamlir og byrjendur jafnt sem lengra komnir. Unnið er að gerð æfinga- og mótaáætlunar fyrir veturinn og verður birt hér á heimasíðunni von bráðar.
Fyrri hluti íslandsmóts skákfélaga mun fara fram núna aðra helgi, 25. 27. september, og verða tefldar fjórar umferðir í þessari lotu. Að venju munu Sauðkrækingar senda sveit til keppninnar, en liðið er núna í 4. deild. Sagðar verða fréttir af gengi liðsins hér á síðunni.
23.3.2015 | 13:12
Íslandsmóti skákfélaga lauk um helgina
Síðari hluti íslandsmóts skákfélaga fór fram í Rimaskóla í Reykjavík um helgina. Skákfélag Sauðárkróks er nú í fjórðu deild en þar öttu kappi 16 lið og var teflt á 6 borðum. Sveit Sauðárkróks að þessu sinni var skipuð þeim Jóni Arnljótssyni, Kristjáni Eiríkssyni, Pálma Sighvatssyni, Unnari Ingvarssyni, Árna Þór Þorsteinssyni, Herði Ingimarssyni og Þór Hjaltalín. Mótið er samtals 7 umferðir, en fyrri hlutinn, þ.e. fyrstu 4 umferðirnar voru tefldar síðasta haust. Sveitin komst nokkuð þokkalega frá þeirri viðueign og skipaði annað sætið eftir fyrri hlutann. Menn voru því farnir að gera sér nokkrar vonir um að færast upp í þriðju deild en þrjú efstu liðin færast upp. Ljóst var þó fyrirfram að róðurinn myndi þyngjast því liðið átti eftir að tefla við sterkar sveitir. Á föstudeginum (5. umferð) mætti liðið Taflfélagi Garðabæjar b sveit. Garðbæingar voru búnir að styrkja sveitina sína þónokkuð frá því í fyrri hlutanum og léku okkar menn heldur grátt. Unnar Ingvarsson og Þór Hjaltalín gerðu jafntefli við sína andstæðinga á 3. og 6. borði, en aðrar skákir töpuðust og úrslitin því 5-1. Í 6. umferð drógumst við á móti Taflfélagi Reykjavíkur d sveit, en þar var um að ræða harðsnúið lið sem leiddi mótið eftir að hafa lagt að velli alla sína andstæðinga. Að þessu sinni var betra stuð á okkar mönnum en í umferðinni á undan. Pálmi og Unnar gerðu jafntefli á 2. og 3. borði og Árni Þór og Hörður höfðu betur gegn sínum andstæðingum á 4. og 5. borði. Jón og Þór urðu hins vegar að játa sig sigraða á 1. og 6. borði. Lokaniðurstaða því 3-3 jafntefli. Fyrir lokaumferðina skipaði sveitin fjórða sætið og var enn nokkur von um að komast á verðlaunapall. Í lokaumferðinni (7. umf) fengum við svo Skákgengið, en þeir sátu í þriðja sæti. Hér var því um að ræða úrslitaviðureign um þriðja sætið á mótinu. Fóru leikar þannig að Unnar gerði jantefli á 4. borði og Árni og Þór sigruðu sína andstæðinga á 5. og 6. borði, en skákirnar á 1-3 borði töpuðust. Lokatölur urðu því 3½ - 2½ Skákgenginu í vil. Sveitin endaði því í sjötta sæti að þessu sinni. Íslandsmót skákfélaga er í raun ein allsherjar skákveisla þar sem saman koma skákmenn allstaðar að af landinu, á öllum aldri og styrkleikaflokkum og etja saman kappi. Skákfélag Sauðárkróks vill þakka mótshöldurum fyrir skemmtilegt mót og stefnum við á að koma tvíefldir til leiks næsta haust. Nánar um úrslit í 4. deild má sjá á vefslóðinni http://chess-results.com/tnr146135.aspx?lan=1&art=3&rd=7&wi=821
12.3.2015 | 09:29
Pálmi Sighvats er skákmeistari Skagafjarðar
Lokaumferð Skákþings Skagafjarðar 2015 Landsbankamótsins var háð í gær. Ljóst var að það stefndi í harða baráttu um sigursætið á mótinu en þrír efstu menn gátu gert sér vonir um að hreppa titilinn Skákmeistari Skagafjarðar 2015. Pálmi tefldi af miklu öryggi á mótinu og lagði Birki Má Magnússon í lokaumferðinni. Hlaut hann þar með 4½ vinning úr 5 umferðum og efsta sætið. Frábær árangur hjá Pálma. Jón Arnljótsson hafði betur gegn Þór Hjaltalín og fór við það upp í annað sætið með 4 vinninga. Þeir Birkir og Jakob Sævar Sigurðsson urðu jafnir með 3 vinninga en Birkir reyndist hærri á stigum og hlaut því þriðja sætið. Mótið var vel sótt, en alls tóku 12 skákmenn þátt. Ánægjulegt er að sjá hina góðu þátttöku Siglfirðinga og Fljótamanna en þeir þurftu að fara um langan veg til að komast á mótsstað. Mót sem þetta er mikil lyftistöng fyrir skáklíf í héraðinu og góð upphitun fyrir Íslandsmót skákfélaga sem nú er framundan, en bæði Skákfélag Sauðárkróks og Skákfélag Siglufjarðar tefla þar fram sveitum. Mótsstjórn vill að lokum þakka þátttakendum fyrir skemmtilegt mót og drengilega keppni. Einnig viljum við þakka Skáksambandi Íslands fyrir veitta aðstoð og Landsbanka Íslands fyrir góðan stuðning við mótið. Úrslit á mótinu má sjá á eftirfarandi vefslóð: http://chess-results.com/Tnr161398.aspx?lan=1
5.3.2015 | 08:49
Lokaumferð frestað vegna ófærðar og snjóflóðahættu
Það ætlar ekki að ganga þrautalaust að ljúka fimmtu og síðustu umferð Skákþings Skagafjarðar - Landsbankamótsins, en tíðarfarið hefur reynst okkur afar óhagstætt. Ákveðið hefur verið að umferðin verði tefld á Sauðárkróki næsta miðvikudag kl 20. Pálmi Sighvats leiðir nú mótið með 3,5 vinninga, en staðan er tvísýn og enn eiga þeir Jón Arnljótsson og Birkir Már Magnússon von um að hafa sigur í mótinu. Ef guð lofar fæst úr því skorið í næstu viku.
25.2.2015 | 15:25
Lokaumferð frestað vegna veðurs
Skákþing Skagafjarðar 2015 - Landsbankamótið stendur nú sem hæst, en lokaumferðin átti að fara fram núna í kvöld. Veðurstofan spáir hins vegar afleitu veðri með kvöldinu og var því ákveðið að fresta taflinu um eina viku, eða til miðvikudagsins 4. mars kl. 20. Þetta er gert í ljósi þess að nokkrir þátttakendur þurfa að fara um langan veg til að komast á mótsstað. Í staðin verður hefðbundin æfing í kvöld fyrir þá sem treysta sér út í veðrið.
22.2.2015 | 14:02
Pálmi Sighvats tekur forystuna
Fjórða og næstsíðasta umferð Skákþings Skagafjarðar 2015 Landsbankamótsins var tefld í gær og urðu nokkrar sviptingar á toppnum. Pálmi Sighvats hafði betur gegn Jóni Arnljótssyni og sigldi þar með fram úr Jóni og leiðir mótið með 3½ vinning. Pálmi er greinilega í fínu formi og teflir af miklu öryggi. Birkir Már Magnússon hafði sigur gegn Jakobi Sævari Sigurðssyni og er þar með kominn upp að hlið Jóns með þrjá vinninga. Næstir, með 2½ vinning, koma svo Þór Hjaltalín og Pétur Bjarnason. Fyrir lokaumferðina, sem tefld verður næsta miðvikudag, er ljóst að þrír efstu, þeir Pálmi, Jón og Birkir, eiga enn möguleika á að hafa sigur í mótinu og stefnir í harða baráttu. Birkir mun stýra hvítu mönnunum gegn Pálma, en Jón þeim svörtu gegn Þór Hjaltalín. Önnur úrslit og pörum 5. umferðar má sjá á vefslóðinni: http://chess-results.com/Tnr161398.aspx?lan=1
14.2.2015 | 16:28
Jón Arnljóts og Jakob Sævar efstir eftir tvær umferðir
Annari umferð Skákþings Skagafjarðar lauk nú fyrir stundu. Keppnisandinn er góður og er barist til siðasta bloðdropa. Tveir standa nú uppi með fullt hús vinninga, en það eru þeir Jón Arnljótsson og Jakob Sævar Sigurðsson. Þeir félagarnir hafa nú verið paraðir í þriðju umferð og má ljóst vera að þar mætast stálin stinn. Þeir Pálmi Sighvats og Örn Þórarinsson fylgja svo fast á eftir með 1½ vinning hvor. Önnur úrslið og pörun þriðju umferðar má sjá á vefslóðinni: http://chess-results.com/Tnr161398.aspx?lan=1
10.2.2015 | 21:07
Skákþing Skagafjarðar hefst á morgun
Fyrsta umferð Skákþings Skagafjarðar 2015 Landsbankamótsins hefst á morgun, miðvikudag 11. febrúar kl. 20 og fer fram í safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju. Þegar þetta er skrifað hafa 12 skákmenn skráð sig til keppni og er enn tækifæri til að vera með, en skráningu lýkur 15 mínútum áður en taflmennskan hefst. Til mikils er að vinna, en sigurvegarinn hlýtur sæmdarheitið Skákmeistari Skagafjarðar 2015. Stefnir í harða keppni og er sérstaklega ánægjulegt að sjá svona marga frá Siglufirði og Fljótum. Þegar skráða keppendur má sjá á vefslóðinni: http://chess-results.com/Tnr161398.aspx?lan=1
Frekari upplýsingar má fá hjá Þór Hjaltalín s. 845 8510 eða senda fyrirspurn á netfangið thor@minjastofnun.is
2.2.2015 | 14:41
Skákþing Skagafjarðar 2015 - Landsbankamótið
Skákþing Skagafjarðar Landsbankamótið, hefst miðvikudaginn 11. febrúar klukkan 20. Teflt verður í Safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju, Aðalgötu 1 á Sauðárkróki. Tefldar verða 5 umferðir samkvæmt svissnesku kerfi.*
Dagskrá:
1. umf. miðvikudagur 11. febrúar kl. 20
2. umf. laugardagur 14 febrúar kl. 10
3. umf. miðvikudag 18. febrúar kl. 20
4. umf. laugardag 21. febrúar kl. 10
5. umf. miðvikudag 25. febrúar kl. 20
Öllum er heimil þáttaka í mótinu og hlýtur sigurvegarinn sæmdarheitið Skákmeistari Skagafjarðar 2015.**
Heimilt verður að sitja hjá eina umferð (að undanskilinni síðustu umferð) og taka ½ vinning fyrir það. Ósk um yfirsetu þarf að berast mótsstjórn í síðasta lagi við upphaf umferðarinnar á undan.
Umhugsunartími verður 90 mín á skákina auk þess sem 30 sek bætast við tímann fyrir hvern leik (90 mín + 30 sek á leik). Mótið verður reiknað til íslenskra og alþjóðlegra skákstiga. Skráning er á netfangið thor@minjastofnun.is og á skákstað eigi síðar en 15 mín fyrir upphaf fyrstu umferðar.
* Mótsstjórn áskilur sér rétt til þess að gera breytingar á auglýstu fyrirkomulagi þegar fjöldi þátttakenda liggur fyrir. Endanlegt fyrirkomulag verður tilkynnt keppendum fyrir upphaf fyrstu umferðar.
** Skákmeistari Skagafjarðar getur aðeins sá orðið sem er búsettur í Skagafirði og/eða er fullgildur félagi í Skákfélagi Sauðárkróks eða Skákfélagi Siglufjarðar.
(Ljósmynd: Hjalti Árnason)