Skýrsla liðsstjóra í Íslandsmóti Skákfélaga 2011-2012

Í upphafi marsmánaðar ár hvert er síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga tefldur. Að þessu sinni var ferðinni heitið til Selfoss þar sem keppt var í glæsilegum Fjölbrautaskóla þeirra Selfyssinga. Hluti sveitarinnar gisti í sumarhúsi í Ölfusborgum þar sem vel fór um alla en aðrir gistu í heimahúsum á Selfossi og Reykjavík.  

Eftir fyrri hluta Íslandsmóts Skákfélaga var ljóst að það yrði nokkuð þungur róður að halda liðinu í þriðju deild, en sveitin hafði unnið sér sæti í henni á vordögum 2011. Nokkrar breytingar urðu á liðinu og ljóst að við þyrftum a.m.k. að vinna eina viðureign af þremur, sem tefldar voru í seinni hlutanum til að halda sæti okkar. Tveir nýir keppendur voru með okkur að þessu sinni. Þeir Christoffer Munkholm og Birkir Már Magnússon, en aðrir liðsmenn voru Jón Arnljótsson, Unnar Ingvarsson, Þorleifur Ingvarsson, Árni Þór Þorsteinsson og Davíð Örn Þorsteinsson.

Í fyrstu umferð seinni hlutans var teflt við b-sveit Garðabæjar. Hvíldi Unnar eftir ökuferðina frá Sauðárkróki, en Þorleifur var í staðinn á öðru borði. Jón Arnljótsson var á því fyrsta, Christoffer Munkholm á þriðja, Árni Þór Þorsteinsson á fjórða, Davíð Örn Þorsteinsson á fimmta og Birkir Már Magnússon á sjötta. Jón sigraði með ótrúlegum hætti í skák sem skipti nokkrum sinnum um eigendur. Undir lokin var hann kominn með fullkomlega tapaða stöðu, en afar slæmur afleikur andstæðingsins gerði það að verkum að Jón vann fyrir rest. Þorleifur gerði jafntefli á öðru borði og Christoffer sigraði örugglega á þriðja. Þá gerði Árni jafntefli á því fjórða en að þessu sinni töpuðu þeir Davíð Örn og Birkir. Niðurstaðan varð því 3-3 jafntefli og einn punktur kominn í hús. Það var hins vegar ljóst að það myndi ekki duga. 

Í annari umferð skiptu þeir bræður Unnar og Þorleifur um hlutverk, en keppt var við b sveit KR. Þorleifur hvíldi en Unnar kom inn á annað borð.  Jón var eins og ávallt á fyrsta borði og tapaði eftir að hafa haft vænlega stöðu. Sama má segja um Unnar á öðru borði og Christoffer á því þriðja. Betri úrslit hefðu getað fengist úr öllum þessum skákum. Davíð lék illa af sér og tapaði, en þeir Árni Þór og Birkir sigruðu í sínum skákum. Tap 2-4 því staðreynd og var frekar súrt í broti. 

Ljóst var því að ekkert dyggði minna en sigur á móti c sveit Akureyringa. Ákveðið var að hvíla Davíð Örn, sem hafði ekki hitt á sinn besta dag. Jón gerði fljótlega jafntefli á fyrsta borði og Unnar sigraði á öðru eftir afleik andstæðingsins. Þorleifur tapaði á þriðja og því allt í járnum. Á fjórða borði náði Árni Þór að snúa á andstæðing sinn, en eftir sátu Christoffer og Birkir. Báðir voru með vænlegar stöður en ekkert öruggt. Þeim tókst hins vegar báðum að ná fram vinningi og sigur 4 1/2 - 1 1/2 staðreynd. 

Niðurstaðan í mótinu varð því sú að við fengum 6 stig og 18 vinninga sem dugði í 10-12. sæti af 18. liðum í deildinni og héldum við okkur því örugglega uppi. Bestum árangri í mótinu í heild náðu þeir Jón Arnljótsson á fyrsta borði og Árni Þór Þorsteinsson sem tefldi yfirleitt á því fjórða. Þeir fengu báðir 4 1/2 vinning af 7 mögulegum, en þeir Christoffer Munkholm og Birkir Már Magnússon fengu 2 vinninga af 3 í seinni hlutanum, sem var okkur mjög mikilvægt. 

Nánari upplýsingar um einstakar umferðir og árangur liðsmanna má sjá á síðunni: http://chess-results.com/tnr57497.aspx?art=20&lan=1&flag=30&snr=16  . Þar má einnig sjá heildarúrslit mótsins. Skákfélag Sauðárkróks óskar sigurvegurum í öllum deildum til hamingju og þakkar fyrir gott og skemmtilegt mót nú sem endranær. Einnig viljum við sérstaklega þakka vinum okkar í Skákfélagi Selfoss og nágrennis fyrir frábærar móttökur og skemmtilega helgi á Selfossi.

 


Skákfélag Sauðárkróks í 9-12 sæti í þriðju deild

Keppni í Íslandsmóti Skákfélaga lauk nú um helgina með þremur síðustu umferðunum. Markmið Skákfélags Sauðárkróks var að halda sæti sínu í 3. deild, sem tókst eftir harða baráttu. Skýrsla liðsstjóra verður birt hér á síðunni á næstu dögum, en hægt er að nálgast úrslit á síðunni www.skaksamband.is

Christoffer Munkholm nýr félagi í Skákfélagi Sauðárkróks

Skákfélagi Sauðárkróks hefur borist liðsauki, en Christoffer Munkholm hefur gerst félagi í Skákfélagi Sauðárkróks. Christoffer er danskur en búsettur á Íslandi. Hann hefur fengið heimild til að keppa með félaginu í síðari hluta Íslandsmóts skákfélaga, sem fer fram á Selfossi fyrstu helgina í mars.


Jón sigrar með miklu öryggi

Jón Arnljótsson varð öruggur sigurvegari á Atskákmóti Sauðárkróks. Hann lagði alla 8 andstæðinga sína. Í öðru sæti varð Unnar Ingvarsson með 6 1/2 vinning og því þriðja Birkir Magnússon með 4 1/2 vinning. Þrír voru jafnir í næstu sætum, Christoffer Munkholm, Guðmundur Gunnarsson og Tryggvi Þorbergsson, en þeir fengu allir 4 vinninga.


Jón með fullt hús eftir 6 umferðir

Jón Arnljótsson er óstöðvandi á atskákmóti Sauðárkróks og hefur enn fullt hús vinninga eftir 6 umferðir. Birkir Már Magnússon og Unnar Ingvarsson hafa 4 1/2 vinning. Guðmundur Gunnarsson og  Christoffer Munkholm hafa 4 vinninga en Christoffer hefur biðskák að auki. Aðrir eru með minna, en keppendur eru alls 9.

Jón Arnljótsson efstur eftir þrjár umferðir á Atskákmóti Sauðárkróks

Atskákmót Sauðárkróks 2012 hófst í kvöld á skákdaginn og voru telfdar fyrstu þrjár umferðirnar. Jón Arnljótsson er einn efstur með fullt hús, en nokkrir keppendur koma skammt undan. Alls taka 9 keppendur þátt í mótinu og verða næstu umferðir tefldar næstkomandi þriðjudag.

Atskákmót Sauðárkróks

Atskákmót Sauðárkróks hefst fimmtudaginn 26. janúar kl. 20:00 í Safnahúsinu á Sauðárkróki. En 26. janúar er afmælisdagur Friðriks Ólafssonar stórmeistara og verða skákviðburðir víða um land í tilefni af deginum.

Tefldar verða atskákir með 25 mínútna umhugsunarfresti pr mann á skák. Fyrstu þrjár umferðirnar verða tefldar á fimmtudeginum, en síðan fram haldið á þriðjudegi 31. janúar. Fjöldi daga ræðst af þátttöku.

Allir eru velkomnir og er skráning á staðnum fyrir fyrstu umferð.

Nánari upplýsingar eru veittar á netfanginu unnar.ingvarsson@gmail.com

 

 


Góð þátttaka í skákæfingum

Skákfélagsmenn hittast á þriðjudagskvöldum kl. 20:00 í Safnahúsinu á Sauðárkróki og hefur mæting verið betri en oftast áður nú í byrjun vetrar. Ný andlit hafa sýnt sig og þar á meðal ungur danskur skákmaður Cristoffer Munkholm. Enn er þó pláss fyrir fleiri og eru enn sem fyrr allir velkomnir, jafnt byrjendur sem lengra komnir.

Fyrri hluta Íslandsmótsins lokið

Fyrri hluta Íslandsmóts Skákfélaga lauk í dag, en Skákfélag Sauðárkróks keppti í þriðju deild mótsins. Stefnan var sett á að reyna að halda velli í deildinni, en félagið vann sig upp úr fjórðu deild í fyrra og því ljóst að róðurinn yrði nokkuð þungur.

Í fyrstu umferð mættum við C liði Bolvíkinga, en þeir eru með skemmtilegt lið, sem voru fyrirfram sterkari. Okkur tókst þó að snúa á þá og sigra 4-2. Jón Arnljótsson sigraði á fyrsta borði, Unnar tapaði á öðru borði, Þorleifur Ingvarsson, sem ekki hefur áður telft fyrir hönd Skagfirðinga, sigraði á því þriðja. Sama gerði Árni Þór Þorsteinsson á fjórða borði, en þeir Guðmundur Gunnarsson og Davíð Örn Þorsteinsson, sem telfdu á tveimur neðstu borðunum gerðu jafntefli. Frábær sigur í fyrstu umferð.

Í annari umferð voru það hins vegar öllu sterkari andstæðingar sem settust á móti okkar mönnum, B lið Víkingasveitarinnar. Skemmst er frá því að segja að aðeins náðist hálfur vinningur í hús, en Jón gerði jafntefli gegn Stefáni Þór Sigurjónssyni sem státar af ríflega 2000 ELO stigum. Vinningsmöguleikarnir voru Jóns, en honum tókst ekki að innbyrða sigurinn. Aðrir mættu ofjörlum sínum, enda var neðstaborðsmaður Víkingana talsvert stigahærri en fyrstaborðsmaður okkar, þannig að erfitt var við að eiga.

Í þriðju umferð var það C lið Hellis sem við mættum. Í fyrsta skipti í keppninni voru andstæðingarnir heldur lakari en okkar sveit fyrirfram. Engu að síður eru allir jafnir þegar taflið hefst og eftir um klukkutíma taflmennsku litu stöðurnar alls ekki vel út. Einhvern veginn tókst Unnari að vinna hartnær tapaða stöðu, Jón náði að snúa á andstæðing sinn og Árni sigraði örugglega. Þeir Kristján Eiríksson, sem tefldi á öðru borði, Guðmundur Gunnarsson og Davíð Örn töpuðu hins vegar af talsverðu öryggi. Niðurstaðan því 3-3 jafntefli.

Í lokaumferðinni mættum við B sveit Akureyringa, sem hefur á að skipa snjöllum skákmönnum á öllum borðum. Niðurstaðan var 1-5 tap. Jón og Davíð náðu góðum jafnteflum, sérstaklega þó Jón, sem var með hartnær tapaða stöðu lengi vel. Aðrir léku illa af sér, sem auðvitað gengur ekki á móti sveit með þennan styrkleika. Jón gerði jafntefli við Sigurð Arnarson á fyrsta borði, Unnar tapaði fyrir Sigurði Eiríkssyni á öðru borði, Þorleifur tapaði fyrir Þór Valtýssyni á þriðja borði. Árni Þór tapaði fyrir Smára Ólafssyni, Guðmundur fyrir Mikael Karlssyni en Davíð Örn gerði baráttujafntefli við Hjörleif Halldórsson en hafði líklega betri stöðu undir lokin, en sættist á skiptan hlut.

Fyrirfram hefðum við verið sáttir með 3 stig eftir fyrrihlutann með 1 sigur og 1 jafntefli en 2 töp í viðureignum. Þessi stig skipta miklu máli fyrir seinni hlutann, en líklega dugir okkur að vinna eina viðureign í síðari hlutanum til að halda okkur uppi í þriðju deild. Jón Arnljótsson stóð sig afburðavel á fyrsta borði, tapaði ekki skák og telfdi eins og gefur að skilja við sterkustu andstæðinganna. Hann hækkar um u.þ.b. 50 skákstig fyrir frammistöðuna. Árni Þór hækkar einnig verulega á stigum, en aðrir döluðu nokkuð á stigalistanum og verða greinilega að taka sig á fyrir seinni hlutann sem fer fram í marsmánuði 2010 á Selfossi.

Nánari upplýsingar um úrslit í öllum deildum má finna á vef Skáksambands Íslands www.skaksamband.is


Skákæfingar hafnar

Sem fyrr verða skákæfingar félagsins á þriðjudagskvöldum í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Æfingarnar hefjast kl. 20:00. Allir eru velkomnir, jafnt byrjendur sem lengra komnir.

Næstu helgi verður fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga tefldur í Reykjavík og teflir Skákfélag Sauðárkróks í 3. deild eftir að hafa unnið sig upp um deild í fyrra. Ljóst er að róðurinn verður erfiður að þessu sinni en stefnan er sett á að halda okkur í deildinni.

Nýr félagi mun tefla með okkur í Íslandsmótinu, Kristján Eiríksson frá Fagranesi, en hann var áður liðsmaður Laugvetninga. Kristján mun styrkja liðið talsvert enda ágætur skákmaður. Alls eru ríflega 20 manns skráðir í félagið en 7 skákmenn munu skipa lið félagsins á Íslandsmótinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband