Skýrsla liðsstjóra í Íslandsmóti Skákfélaga 2011-2012

Í upphafi marsmánaðar ár hvert er síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga tefldur. Að þessu sinni var ferðinni heitið til Selfoss þar sem keppt var í glæsilegum Fjölbrautaskóla þeirra Selfyssinga. Hluti sveitarinnar gisti í sumarhúsi í Ölfusborgum þar sem vel fór um alla en aðrir gistu í heimahúsum á Selfossi og Reykjavík.  

Eftir fyrri hluta Íslandsmóts Skákfélaga var ljóst að það yrði nokkuð þungur róður að halda liðinu í þriðju deild, en sveitin hafði unnið sér sæti í henni á vordögum 2011. Nokkrar breytingar urðu á liðinu og ljóst að við þyrftum a.m.k. að vinna eina viðureign af þremur, sem tefldar voru í seinni hlutanum til að halda sæti okkar. Tveir nýir keppendur voru með okkur að þessu sinni. Þeir Christoffer Munkholm og Birkir Már Magnússon, en aðrir liðsmenn voru Jón Arnljótsson, Unnar Ingvarsson, Þorleifur Ingvarsson, Árni Þór Þorsteinsson og Davíð Örn Þorsteinsson.

Í fyrstu umferð seinni hlutans var teflt við b-sveit Garðabæjar. Hvíldi Unnar eftir ökuferðina frá Sauðárkróki, en Þorleifur var í staðinn á öðru borði. Jón Arnljótsson var á því fyrsta, Christoffer Munkholm á þriðja, Árni Þór Þorsteinsson á fjórða, Davíð Örn Þorsteinsson á fimmta og Birkir Már Magnússon á sjötta. Jón sigraði með ótrúlegum hætti í skák sem skipti nokkrum sinnum um eigendur. Undir lokin var hann kominn með fullkomlega tapaða stöðu, en afar slæmur afleikur andstæðingsins gerði það að verkum að Jón vann fyrir rest. Þorleifur gerði jafntefli á öðru borði og Christoffer sigraði örugglega á þriðja. Þá gerði Árni jafntefli á því fjórða en að þessu sinni töpuðu þeir Davíð Örn og Birkir. Niðurstaðan varð því 3-3 jafntefli og einn punktur kominn í hús. Það var hins vegar ljóst að það myndi ekki duga. 

Í annari umferð skiptu þeir bræður Unnar og Þorleifur um hlutverk, en keppt var við b sveit KR. Þorleifur hvíldi en Unnar kom inn á annað borð.  Jón var eins og ávallt á fyrsta borði og tapaði eftir að hafa haft vænlega stöðu. Sama má segja um Unnar á öðru borði og Christoffer á því þriðja. Betri úrslit hefðu getað fengist úr öllum þessum skákum. Davíð lék illa af sér og tapaði, en þeir Árni Þór og Birkir sigruðu í sínum skákum. Tap 2-4 því staðreynd og var frekar súrt í broti. 

Ljóst var því að ekkert dyggði minna en sigur á móti c sveit Akureyringa. Ákveðið var að hvíla Davíð Örn, sem hafði ekki hitt á sinn besta dag. Jón gerði fljótlega jafntefli á fyrsta borði og Unnar sigraði á öðru eftir afleik andstæðingsins. Þorleifur tapaði á þriðja og því allt í járnum. Á fjórða borði náði Árni Þór að snúa á andstæðing sinn, en eftir sátu Christoffer og Birkir. Báðir voru með vænlegar stöður en ekkert öruggt. Þeim tókst hins vegar báðum að ná fram vinningi og sigur 4 1/2 - 1 1/2 staðreynd. 

Niðurstaðan í mótinu varð því sú að við fengum 6 stig og 18 vinninga sem dugði í 10-12. sæti af 18. liðum í deildinni og héldum við okkur því örugglega uppi. Bestum árangri í mótinu í heild náðu þeir Jón Arnljótsson á fyrsta borði og Árni Þór Þorsteinsson sem tefldi yfirleitt á því fjórða. Þeir fengu báðir 4 1/2 vinning af 7 mögulegum, en þeir Christoffer Munkholm og Birkir Már Magnússon fengu 2 vinninga af 3 í seinni hlutanum, sem var okkur mjög mikilvægt. 

Nánari upplýsingar um einstakar umferðir og árangur liðsmanna má sjá á síðunni: http://chess-results.com/tnr57497.aspx?art=20&lan=1&flag=30&snr=16  . Þar má einnig sjá heildarúrslit mótsins. Skákfélag Sauðárkróks óskar sigurvegurum í öllum deildum til hamingju og þakkar fyrir gott og skemmtilegt mót nú sem endranær. Einnig viljum við sérstaklega þakka vinum okkar í Skákfélagi Selfoss og nágrennis fyrir frábærar móttökur og skemmtilega helgi á Selfossi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband