10.10.2011 | 22:11
Fyrri hluta Íslandsmótsins lokið
Fyrri hluta Íslandsmóts Skákfélaga lauk í dag, en Skákfélag Sauðárkróks keppti í þriðju deild mótsins. Stefnan var sett á að reyna að halda velli í deildinni, en félagið vann sig upp úr fjórðu deild í fyrra og því ljóst að róðurinn yrði nokkuð þungur.
Í fyrstu umferð mættum við C liði Bolvíkinga, en þeir eru með skemmtilegt lið, sem voru fyrirfram sterkari. Okkur tókst þó að snúa á þá og sigra 4-2. Jón Arnljótsson sigraði á fyrsta borði, Unnar tapaði á öðru borði, Þorleifur Ingvarsson, sem ekki hefur áður telft fyrir hönd Skagfirðinga, sigraði á því þriðja. Sama gerði Árni Þór Þorsteinsson á fjórða borði, en þeir Guðmundur Gunnarsson og Davíð Örn Þorsteinsson, sem telfdu á tveimur neðstu borðunum gerðu jafntefli. Frábær sigur í fyrstu umferð.
Í annari umferð voru það hins vegar öllu sterkari andstæðingar sem settust á móti okkar mönnum, B lið Víkingasveitarinnar. Skemmst er frá því að segja að aðeins náðist hálfur vinningur í hús, en Jón gerði jafntefli gegn Stefáni Þór Sigurjónssyni sem státar af ríflega 2000 ELO stigum. Vinningsmöguleikarnir voru Jóns, en honum tókst ekki að innbyrða sigurinn. Aðrir mættu ofjörlum sínum, enda var neðstaborðsmaður Víkingana talsvert stigahærri en fyrstaborðsmaður okkar, þannig að erfitt var við að eiga.
Í þriðju umferð var það C lið Hellis sem við mættum. Í fyrsta skipti í keppninni voru andstæðingarnir heldur lakari en okkar sveit fyrirfram. Engu að síður eru allir jafnir þegar taflið hefst og eftir um klukkutíma taflmennsku litu stöðurnar alls ekki vel út. Einhvern veginn tókst Unnari að vinna hartnær tapaða stöðu, Jón náði að snúa á andstæðing sinn og Árni sigraði örugglega. Þeir Kristján Eiríksson, sem tefldi á öðru borði, Guðmundur Gunnarsson og Davíð Örn töpuðu hins vegar af talsverðu öryggi. Niðurstaðan því 3-3 jafntefli.
Í lokaumferðinni mættum við B sveit Akureyringa, sem hefur á að skipa snjöllum skákmönnum á öllum borðum. Niðurstaðan var 1-5 tap. Jón og Davíð náðu góðum jafnteflum, sérstaklega þó Jón, sem var með hartnær tapaða stöðu lengi vel. Aðrir léku illa af sér, sem auðvitað gengur ekki á móti sveit með þennan styrkleika. Jón gerði jafntefli við Sigurð Arnarson á fyrsta borði, Unnar tapaði fyrir Sigurði Eiríkssyni á öðru borði, Þorleifur tapaði fyrir Þór Valtýssyni á þriðja borði. Árni Þór tapaði fyrir Smára Ólafssyni, Guðmundur fyrir Mikael Karlssyni en Davíð Örn gerði baráttujafntefli við Hjörleif Halldórsson en hafði líklega betri stöðu undir lokin, en sættist á skiptan hlut.
Fyrirfram hefðum við verið sáttir með 3 stig eftir fyrrihlutann með 1 sigur og 1 jafntefli en 2 töp í viðureignum. Þessi stig skipta miklu máli fyrir seinni hlutann, en líklega dugir okkur að vinna eina viðureign í síðari hlutanum til að halda okkur uppi í þriðju deild. Jón Arnljótsson stóð sig afburðavel á fyrsta borði, tapaði ekki skák og telfdi eins og gefur að skilja við sterkustu andstæðinganna. Hann hækkar um u.þ.b. 50 skákstig fyrir frammistöðuna. Árni Þór hækkar einnig verulega á stigum, en aðrir döluðu nokkuð á stigalistanum og verða greinilega að taka sig á fyrir seinni hlutann sem fer fram í marsmánuði 2010 á Selfossi.
Nánari upplýsingar um úrslit í öllum deildum má finna á vef Skáksambands Íslands www.skaksamband.is
Flokkur: Spil og leikir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.